Sunday, March 4, 2012

Femínistar og valdefling konunnar

Eða - þú þorir ekki, getur ekki neitt, og veist ekki hvað þú vilt.

Femínistar reka megnan áróður fyrir því sjónarmiði að gífurleg kvennakúgun eigi sér stað í samfélagi okkar. Það er raunar furðuleg afstaða þegar kalt mat er lagt á stöðu kvenna á Íslandi í dag, og stöðu kvenna á öðrum tímum og stöðum í heiminum, það ku jú best í heimi að vera kona á Íslandi:


Það er hins vegar ekki umfjöllunarefni þessa pistils.

Samantekt

Femínistar hvetja ekki konur til að reyna að bæta stöðu sína af eigin rammleik, þvert á móti bregðast femínistar illa við þegar tilburðir í að bæta stöðu kvenna koma fram sem ekki eru á forsendum femínista. Ástæðan er að femínistar sækjast fyrst og fremst eftir völdum, og ef staða kvenna batnar minnka möguleikar femínista á að komast til pólitískra valda. Nútíma femínismi er orðinn andhverfa rauðsokkuhreyfingarinnar.

Hér verður tekið fyrir hvernig femínistar hvetja konur til að bæta stöðu sína hver og ein gagnvart því ofríki sem þeim er talin trú um þær séu beittar. Besta leiðin til að hjálpa einhverjum er jú að benda viðkomandi á hvernig hann/hún getur hjálpað sjálfum/sjálfri sér. Fljótt kemur á daginn að femínistar gera það alls ekki, og bregðast reyndar við á mjög neikvæðan hátt þegar tilraun til að leiðrétta misréttið kemur fram sem er ekki á forsendum femínista. Það kynni að koma einhverjum á óvart, en er fullkomlega skiljanlegt út frá þeirri forsendu að fyrir femínistum vakir alls ekki að bæta stöðu kvenna.

Best er að taka fyrir það áhersluatriði sem femínistar halda einna mest á lofti: hinn "óútskýrða launamun" kynjanna. Hugmyndin er sú, að meðaltalstekjur kynjanna séu mismiklar, og að þegar búið er að leiðrétta fyrir ýmsum þáttum sem skýra þennan mun, þ.e. orsakast ekki af misrétti, þá sé enn eftir einhver munur sem ekki tekst að skýra með málefnalegum rökum. Svo það komi skýrt fram, þá dreg ég alls ekki í efa að svo sé.

Tökum það sem gefið - konur fá að meðaltali lægri laun en karlmenn fyrir sömu störf. Þá er ein spurning sem skýtur strax upp kollinum - hvað gerir sá/sú sem telur sig fá of lág laun? Svarið er jafn augljóst og spurningin: fer á fund yfirmanns og biður um launahækkun. Femínistar vilja bæta þetta misrétti að eigin sögn, svo það er augljóst hver boðskapur þeirra til kvenna á vinnumarkaði er: "Farið að hitta yfirmanninn ykkar og farið fram á launahækkun!" Ekki satt?


Nei - ósatt. Femínistar hafa ALDREI hvatt konur til slíks - ég segi það með fyrirvara því maður ætti aldrei að segja aldrei - en ég hef amk aldrei heyrt af slíku. (Ef einhver þekkir dæmi slíks, endilega bendið mér á!) Sú staðreynd, (ef rétt reynist) er óskiljanleg ef gengið er út frá því að femínistar vilji raunverulega valdefla konur og útrýma kynbundnum launamun, en fullkomlega skiljanlegt ef gengið er út frá því að femínistar hafi engan áhuga á því sama. Eins og aðrir alræðishyggjusöfnuðir nærist femínismahreyfingin á hinu meinta óréttlæti sem hann gefur sig út fyrir að berjast gegn. Ef óréttlætinu væri útrýmt einn góðan veðurdag þá hverfur grundvöllurinn fyrir söfnuðinum og valdadraumar hans gufa upp. Nákvæmlega það gerðist í V-Evrópu á fyrri hluta 20. aldar og fram undir 1970 að því er varðar Marxismann. Verkalýðsfélög náðu að leiðrétta það óréttlæti, sem var vissulega hróplegt, sem fólst í lágum launum og slæmum aðbúnaði verkafólks og Marxistar úthrópuðu. Með því að vandamálið hvarf missti allt fólk með réttu ráði áhugann á því að gera blóðuga byltingu og lyfta Marxistum til alvalda. Femínistahreyfingin er hugmyndafræðilegur arftaki Marxismans, (meira um það síðar) og femínistar vilja fyrir alla muni forðast að einhver sagi greinina undan þeim með því að leysa vandamálið. Hvað gerist þá þegar einhver hefur uppi tilburði í þá veru? Það er mjög athyglisvert.

Í september 2011 kom Verslunarmannafélag Reykjavíkur með útspil í þessu máli:


"Hefur VR ákveðið að skera upp herör gegn kynbundnum launamun og skorar á atvinnurekendur að leiðrétta það misrétti sem felst í að greiða konum að jafnaði 10% lægri laun en körlum fyrir sömu vinnu.

Fyrirtæki eru hvött til að lýsa stuðningi við átakið og að veita konum sérstakan 10% afslátt af vöru og þjónustu á tímabilinu 20.-26. september. Með því að bæta konum á þennan táknræna hátt 10% launamuninn leggja fyrirtækin sitt lóð á vogarskálarnar í þeirri vitundarvakningu sem nauðsynleg er til að útrýma launamisréttinu."

Athygli vekur að þarna var ekki verið að stinga upp á varanlegu fyrirkomulagi heldur tímabundinni uppákomu sem var ætluð til vitundarvakningar, nákvæmlega það sem femínistar hvetja til í sífellu - vitundarvakningar. Viðbrögð femínista urðu þess vegna afar jákvæð gagnvart þessu framtaki, eins og forkólfar VR höfðu vænst - ekki satt?

Nei - ósatt. Viðbrögð femínista voru þvert á móti neikvæð. Hrafnhildur Snæfríðar og Gunnarsdóttir, talskona Femínistafélagsins hafði þetta að segja um frumkvæði VR:


"Þarna gefst fyrirtækjum sem mismuna starfsfólki sínu á grundvelli kyns tækifæri til að fá á sig einhvers konar jafnréttisstimpil og fá auglýsingu út á að vera á móti kynbundnum launamun. Þótt enginn sé hlynntur kynbundnum launamun, en samt veigri fyrirtæki sér við að leiðrétta hann."


Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að ég tel ekki að þetta sé góð hugmynd hjá VR, vegna þess að eitt óréttlæti á ekki að leiðrétta með öðru. Hins vegar er það röksemdafærsla femínista í málinu sem skiptir máli. Það er femínistafélaginu þyrnir í augum að fyrirtæki geti hugsanlega haft jákvæða umfjöllun upp úr krafsinu með því að leggja lóð sitt á vogarskálarnar að því að útrýma kynbundnum launamun. Það er AÐALATRIÐIÐ í þeirra augum og mikilvægara en hin eiginlega barátta gegn kynbundnum launamun - aðrir en femínistar mega ekki sjást gera eitthvað sem miðar að því að leysa vandamálið. Svart skal vera svart og hvítt skal vera hvítt - femínistar eru hið frelsandi afl og fyrirtækin eru óvinurinn.

Áróður femínista hamrar í sífellu á því að þjóðfélagið sé gegnsýrt óréttlæti gagnvart konum, svo rótgrónu misrétti að konur hafi enga möguleika á því að bæta stöðu sína af eigin rammleik. Þetta kalla ég fórnarlambsvæðingu, og er sami undirróður og nasistar og Marxistar höfðu uppi á sínum tíma, aðeins með annan markhóp. Eins og ég hef nefnt, vekur það athygli að femínistar virðast aldrei hvetja konur til að taka af skarið, hver og ein fyrir sig, til að bæta stöðu sína eftir því sem unnt er. Þarna er á ferðinni hróplegt ósamræmi við það sem rauðsokkurnar boðuðu hér á landi á árum áður. Það voru konur sem virkilega börðust fyrir kvenréttindum. Man einhver slagorð þeirra? Jú það var svona:

"Ég þori, get og vil."


Rauðsokkurnar voru óþreytandi við að minna konur á að rísa upp og taka þann rétt sem þeim var annars neitað um. Þeim tókst líka ætlunarverk sitt. Lög og reglur sem hömluðu framgangi konunnar á hvaðeina vettvangi samfélagsins heyra nú sögunni til. Málflutningur femínista nú er með ólíkindum hvað þetta varðar. Femínistar tala sífellt um skilaboð samfélagsins til kvenna, sem láta þær gera hluti sem þær kæra sig ekki um, eða að þær geri sér ekki grein fyrir því að verið sé að stjórna þeim - eins og konur séu viljalaus og heilalaus fyrirbæri. Í þessu felst ekki minni kvenfyrirlitning, og það af hálfu þeirra sem þykjast berjast fyrir hagsmunum kvenna, en úr munni þeirra einstaklinga sem mest velta sér upp úr kvenfyrirlitningu sinni. Hver eru skilaboðin þá? Þau eru að konur séu fórnarlömb, ósjálfbjarga leiksoppar aðstæðna sem þær hafa ekki roð við. Það mætti orða svo:

"Þú þorir ekki, þú getur ekki neitt, og þú veist ekki hvað þú vilt. Þess vegna þarftu okkur femínistana til að passa upp á þig."

Góðar stundir.

Femma Hrúts

No comments:

Post a Comment