Friday, February 10, 2012

Femma Hrúts og femínisminn

Velkomin í Femmuhornið!


Femínismi, femínistar, þetta og hitt. Það er ekki flett blaði eða skrollað síðu að þetta dót skjóti ekki upp kollinum. Hvað er þessi femínismi? Á þessum síðum ætla ég, Femma Hrútsdóttir, að dekka þetta í eitt skipti fyrir öll. Þeir lesendur sem hingað koma munu ekki þurfa að leita lengra - eða það er hið háleita markmið.

Hvað er femínismi?

Rætur femínisma liggja á nokkrum stöðum. Það er best að taka það fram strax í upphafi að ég veit fullvel að ekki eru allir femínistar - þá meina ég fólk sem kallar sig femínista - sammála um allt - sumir jafnvel um fátt. Það sem ég ætla að tækla, svo það komi nú skýrt fram, er það hvað femínisminn er núna í dag, og þá fyrst og fremst á Íslandi.

Femínisminn, þá á ég við hin alþjóðlega femínistahreyfing sem á sér vissa birtingarmynd hér á landi, er pólitískt afl. Eins og er um öll önnur pólitísk öfl er höfuðmarkmiðið að öðlast völd - völd yfir öðrum einstaklingum, völd yfir þjóðum osfrv. Eins og önnur pólitísk öfl hefur femínisminn baráttumál, sem er kvenréttindi - nánar um það síðar.

Hvað segja femínistar sjálfir? Hin viðurkennda lína í dag, sem er komin úr efstu loftum femínistahreyfingarinnar, sem m.a. Femínistafélag Íslands (FeÍ) boðar er þessi:

„Femínisti er karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því.“

Það er nefnilega það. Mjög einfalt, mjög sætt. Einhver sem "veit" - ekki "telur" heldur veit - það er ekki opnað á neinn annan möguleika en að þetta sé staðreynd. Mannkynið skiptist að því er virðist í tvo hópa, þá sem hafa öðlast þessa vitneskju og þá sem eru fáfróðir um hana. En jæja. Einfalt og sætt en um leið lævíslegt. Hver vill ekki jafnrétti kynjanna? Hver vill ekki bæta stöðu kvenna? Þeir sem það vilja ekki hljóta að vera eitthvað klikk. Samkvæmt þessu eru eiginlega allir femínistar, og að vera femínisti er sjálfsagður og eðlilegur hlutur.

En nei - þetta stenst nefnilega ekki. Það er nefnilega þannig að ég vil að hinar vinnandi stéttir njóti sem bestra kjara og réttinda, en ég er samt ekki kommúnisti. Ég vil þjóð minni allt hið besta, en ég er samt ekki nasisti. Ég vil frjálsa verslun en ég er samt ekki sjálfstæðismaður. Ég vil vernda náttúruna en ég er samt ekki..... ég á enga samleið með mörgum þeim aðilum og samtökum sem berjast fyrir náttúruvernd. Þannig eru hlutirnir nefnilega ekki - ekki einfaldir og ekki sætir. Þegar orðið "femínisti" er notað, þá er það ekki notað eins og femínistar sjálfir vilja að það sé notað. Merking orðsins er ekki sú sem þeir vilja ákveða að hún sé. En hver er hún þá?

Það sem ég tel réttara að segja er þetta (og það sem kemur hér á eftir á eftir að sjokkera marga. Það er hins vegar langt mál að rökstyðja, svo vinsamlegast hafið dálitla þolinmæði)

Femínisminn - femínistahreyfingin - er pólitískt afl, og fellur undir nokkuð sem ég hef ákveðið að kalla: Alræðishyggjusöfnuður.

Önnur dæmi um alræðishyggjusöfnuði eru kommúnisminn og nasisminn/fasisminn. Vel má vera að bæta mætti nokkrum trúarbrögðum í þennan hóp, en ég læt það kyrrt liggja. Hvað á þá femínistminn sameiginlegt með þessum tveim sem ég nefndi? Býsna margt, þegar betur er að gáð. En áður en það er tíundað er eitt sem þarf að negla niður fyrst. Eins og ég sagði er höfuðmarkmið femínismans að öðlast völd, meðan baráttumálið er jafnrétti kynjanna og kvenréttindi. Þetta er auðvitað tvennt ólíkt, og það sem slær mestu ryki í augun á fólki þegar talað er um femínisma, er einmitt þetta baráttumál. Eins og ég sagði þá er ekki hægt annað að styðja það baráttumál, og hver sem berst fyrir jafn göfugu markmiði á allt gott skilið, er það ekki?

Þarna stendur hnífurinn í kúnni. Sannleikurinn er sá að femínistar berjast alls ekki fyrir jafnrétti eða kvenréttindum, heldur nota það sem yfirvarp. Femínistar leggja iðulega lóð sitt á vogarskál kvennakúgunar og vinna gegn jafnrétti kynjanna og um það eru mörg dæmi:

1) Yfirráð konunnar yfir eigin líkama. Þetta er ein af meginkröfum kvenfrelsisbaráttunnar frá því í gamla daga, sem ég studdi heilshugar og styð enn. En hvað hafa femínistar dagsins í dag fram að færa þegar kemur að þessu baráttumáli? Það kemur örugglega mörgum á óvart. Úr ályktun FeÍ um staðgöngumæðrun:

"Femínistafélag Íslands leggst gegn því að staðgöngumæðrun verði heimiluð á Íslandi, hvort sem er í hagnaðarskyni eða velgjöðrarskyni. Félagið telur varasamt að ganga út frá því að barneignir séu álitin sjálfsögð réttindi og að litið sé á að konur, og æxlunarfæri þeirra, sem verkfæri í þeim tilgangi að tryggja öðrum þessi réttindi."


Það er nefnilega það! Skv. íslenskum femínistum, hver er það sem ræður yfir líkama konunnar? Ekki konan sjálf heldur einhver annar, hvort sem það muni vera ríkisvaldið eða femínistafélagið. Ef systir, frænka eða vinkona vill ganga með barn sem móðirin er sjálf ófær um, þá vilja femínistar BANNA henni það! Rökstuðningurinn er svo kapítuli út af fyrir sig: "... að ganga út frá því að barneignir séu álitin sjálfsögð réttindi..." jæja já - ég hélt nú einmitt að það væru sjálfsögð réttindi mín að ganga með barn ef svo ber undir, en það ber ekki á öðru en að femínistar vilji að það sé leyfisskyld starfsemi. Réttir aðilar þurfa þá væntanlega að komast að vandaðri niðurstöðu um hverjir fá að eignast börn og hverjir ekki, og hverjir eru betur fallnir til slíkra ákvarðana en fulltrúar femínista? Þarna er auk þess gefið í skyn að það sé ekki konan sem taki ákvarðanir um eigin líkama heldur einhverjir aðrir, það sé því ekki til neins að fela henni yfirráð yfir líkama sínum. Þetta er eitt lítið dæmi af mörgum stórum og smáum, um að femínistar afskrifa konuna sem ákvörðunaraðila. Svo mikið er víst að hjá femínistum eru sjónarmið sem eru veigameiri en það að konan hafi yfirráð yfir eigin líkama.


2) Kynhlutsaus lög. Þetta ætti nú að vera sjálfsögð krafa, að landslög geri ekki upp á milli kynjanna, og að sjálfsögðu ætti þetta að vera baráttumál femínista. Það er nú öðru nær. Í umsögn frá Stígamótum um frumvarp til laga um heimilisofbeldi stendur: "Það er ekki ásættanlegt að vera með kynhlutlaus lög þegar samfélagið er langt í frá kynhlutlaust." Þar hafið þið það. Stígamót eru félagsskapur sem hefur unnin mjög gott starf í gegnum tíðina, en eru um leið þungavigtarfélag innan femínistahreyfingarinnar á Íslandi. Framlag femínista er hér að leggjast gegn því að lög séu kynhlutlaus, gegn kynjajafnrétti. Rökin eru þau að samfélagið í dag sé ekki kynhlutlaust. En hvernig ímynda Stígamótakonur sér þá að hægt sé að gera samfélagið kynhlutlaust ef sett eru lög sem mismuna kynjunum?


3) Niðurlæging karlmanna. Femínistar eru stundum sakaðir um að reyna að koma höggi á karlmenn og niðurlægja þá, en vísa því jafnan á bug. Þessi ásökun á við rök að styðjast eins og eftirfarandi dæmi sannar. Árið 2010 samþykkti Reykjavíkurborg að breyta fimm götunöfnum í Reykjavík til að minnast meðal annars Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og fleiri kvenna, og var þetta gert að kröfu femínista. Það er hið besta mál og af mörgum flatneskjulegum götuheitum að taka. En hvaða götur skyldu hafa orðið fyrir valinu? TVÆR götur af þessum fimm sem missa sitt gamla heiti bera nafn Skúla Magnússonar, stofnanda Reykjavíkur - Skúlagata og Skúlatún. Það er svo að þegar á reynir virðist ekki hægt að minnast genginna ágætiskvenna nema niðurlægja karlmenn - í þessu tilviki þann karlmann sem Reykvíkingar hafa mesta ástæðu af öllum til að minnast. Svona er jafnrétti femínista. Og ekki segja "tilviljun", ég kaupi það einfaldlega ekki.

Lesandinn þekkir vafalaust slatta af öðrum dæmum sem benda til þess að femínistar berjast ekki fyrir jafnrétti í raun, en þessi dæmi hér eru svo skýr og afdráttarlaus - þess vegna valdi ég þau. Femínistar berjast ekki fyrir jafnrétti heldur nota það sem yfirskin kaldrar valdabaráttu. Nú er hægt að tala betur um það sem er líkt með femínismanum og öðrum alræðishyggjusöfnuðum.

Alræðishyggjusöfnuður er félagsskapur sem myndast um tiltekið baráttumál, eitt eða fleiri, og gerir á þeim grundvelli tilkall til valda í samfélaginu. Það er þó ekki öll sagan; alræðishyggjusöfnuðir skilja sig frá venjulegum stjórnmálaflokkum á eftirfarandi hátt:

1) Benda með réttu eða röngu á einhvern hóp sem undirokaðan; ala á þeim boðskap að viðkomandi hópur sé fórnarlamb afla sem hópurinn sé varnarlaus gegn og bjóða upp á að frelsun úr ánauð fyrir þennan hóp.

Kommúnistar bentu á "proletariatið" - öreigalýð í borgum iðnvæðingar. Nasistar bentu á þýska þjóð, nánar tiltekið "kynhreina Aría" í Þýskalandi. Femínistar benda á konur.


 Myndartextinn hljóðar: "ölum upp kynslóð sem heldur fórnfúsri tryggð við kommúnismann"

2) Sbr. 1, benda á annan hóp sem kúgarann.

Kommúnistar bentu á kapítalista, fjármagnseigendur, sem kúgara öreigalýðsins. Nasistar bentu á gyðinga og kommúnista sem sökudólga fyrir því hvernig komið var fyrir þýskri þjóð á 3. áratugnum. Femínistar benda á karla, nánar tiltekið "feðraveldið" sem kúgarann.

Myndartexti: "Annað hvort drepum við auðmagnið eða við deyjum undir hæl auðmagnsins"

3) Boða sæluríki. Ef aðeins söfnuðurinn sem um ræðir fær völdin í sínar hendur þá lofar söfnuðurinn að gera róttækar breytingar á samfélaginu sem tryggir framtíð velsældar. Kommúnistar lofuðu að uppfylla lokatakmarkið, sem er það sem þeir kölluðu "kommúnismi", það var sæluríki verkalýðsins þar sem samfélagið var laust við alla kúgun, skort og óréttlæti. Nasistar lofuðu dýrðarríki sem átti að vera hið fullkmnasta í sögunni og standa í þúsund ár. Femínistar lofa því að þegar þeir/þær komast til valda, þá verði tekið í tauma félagsmótunar með þeim hætti að karlrembur geti ekki lengur orðið til og misrétti kynjanna verði þar með úr sögunni til frambúðar - auk þess sem allir þættir samfélagsins verði teknir til gagngerrar endurskoðunar og endurskipulagningar svo jafnrétti verði tryggt. Meira um það síðar, það er ýmislegt sem þarna hangir á spýtunni.


4) Afneita öllum eldri sannindum. Alræðishyggjusöfnuðir viðurkenna engin eldri sannindi, hvorki hefðbundin né vísindaleg, nema þegar svo vill til að þau virðast styðja málstað söfnuðarins. Kommúnistar eru þekktir fyrir að líta á eldri sannindi sem afsprengi hins kapítalíska samfélags og þess vegna séu þau einskis virði. Svipað má segja um nasista. Undantekningar eru söguleg dæmi, sönn eða rómantískt fegruð, sem virðast styðja málstaðinn, eins og td. hin rómantíska ímynd þýsks riddararíkis á miðöldum, í tilviki nasista. Hið sama gildir um femínista. Þeirra uppáhalds frasi þegar kemur að slíkum hugmyndum er "gamaldags hugsun".

5) Áróður. Málflutningur alræðishyggjusöfnuða hefur tiltekin einkenni sem aðeins að litlu leyti er hægt að heimfæra upp á hefðbundna stjórnmálaflokka, en eru allsráðandi hjá alræðishyggjusöfnuðum. Ég er hér að tala um að í fyrsta lagi er ekki rökrætt við andmælendur heldur miskunnarlaust ráðist á þá persónulega og þeir ataðir auri. Í öðru lagi, þegar ekki er um að ræða orðaskipti við mótaðila, þá vill alræðishyggjusöfnuður rökræða - og varla er hægt að nota það orð yfir málflutninginn - á sínum forsendum. Það er tryggt með því að nota timbrað tungumál sem samanstendur af frösum og hugtökum sem söfnuðurinn sjálfur hefur búið til, og sífellt að hamra á sömu órökstuddu fullyrðingunum og slagorðunum þar til fólk fer að líta á það sem sannleika. Nasistar eru þekktir fyrir síðastnefndu aðferðina. Femínistar nota þessar aðferðir óspart.

6) Gervivísindi og innræting æskunnar. Alræðishyggjusöfnuðir leitast við að færa málflutning sinn í búning vísinda og halda því fram að raunverulegar vísindalegar rannsóknir liggi að baki - allavega hefur það verið aðferð þeirra frá og með 20. öldinni. Kommúnisminn gefur sig út fyrir að byggja á sagnfræðivísindum. Nasisminn byggði sinn málflutning á kynþáttavísindum og afbökun á þróunarkenningunni. Femínistar hafa sín eigin meintu vísindi sem nefnast kynjafræði. Í öllum tilfellum er þó um gervivísindi að ræða, málefni sem eru klædd í búning vísinda en aðferðirnar að baki niðurstöðunum eru ekki vísindalegar, eru ýmist hreint kukl eða brjóta með veigamiklum hætti gegn vísindalegri aðferðafræði. Allir þessir þrír söfnuðir hafa leitast við að koma gervivísindum sínum inn í skóla til að kenna ungu kynslóðinni sem sannleika. Öllum þrem hefur tekist það. Í Sovétríkjunum td. var veigamikil kennslugrein sem nefndist Marx-Lenínísk fræði. Eftir valdatöku nasista var fljótlega farið að kenna kynþáttafræði í skólum.

Myndræn útskýring á Nurnberg-lögunum. Þau voru byggð á gervivísindum nasista, kynþáttafræðinni - kjánalegt þrugl fyrir valdatöku nasista, ískaldur raunveruleiki sem sundraði fjölskyldu og samfélagi eftir valdatökuna.

Femínistar hafa komið því til leiðar að farið er að kenna kynjafræði í skólum. Þar eru "fræði" femínista höfð fyrir börnum og unglingum sem sum hver hafa ekki aldur og þroska til að taka því sem þar er fram borið með eðlilegum fyrirvara. Hvernig ætli nasistum hefði þótt það ef þeim hefði verið hleypt inn í skólana með kynþáttafræði sín jafnvel áður en þeir tóku öll völd í sínar hendur? Ef þeir hefðu getað haft prófessora í kynþáttafræðum við háskóla landsins til að tjá sig með yfirveguðum hætti, og útksrifað doktora í kynþáttafræði með pompi og prakt - að ekki sé talað um að bera þessi fræði á borð fyrir börn og unglinga. Þeim hefði líklega ekki þótt það skítt. Um gervivísindi femínismans verður talað betur um síðar.

Ég viðurkenni fúslega að þetta hljómar allt frekar ótrúlega - að bera saman femínisma og alræðishyggjuöfl 20. aldar með öllum þeim hörmungum sem þeim fylgdu. Er ég þá að segja að ef femínistar komast til valda á Íslandi þá verði afleiðingarnar sams konar, þeas fangabúðir og skipuleg útrýming fólks af vissu sauðahúsi? Nei, ég er ekki að segja það. Ég er hins vegar að segja að femínismi er hreyfing af sama meiði og hinar tvær, og hættuleg sem slík. Síðast en ekki síst vil ég benda á að ÁÐUR en nasistar komust til valda í Þýskalandi og kommúnistar í Rússlandi, þá óraði engan fyrir því hvað það myndi þýða. Það var jú ekki eitt af opinberum baráttumálum nasistaflokksins að jafnskjótt og þeir væru komnir til valda myndu þeir byrja að handtaka alla sem þeir litu á sem óvini sína og láta fólk hverfa að næturlagi inn í fangabúðir. Þeir minntust aldrei á það. Sama má segja um bolsévíka. Þeir boðuðu aldrei lögregluríki og öryggislögreglu sem léti leynilögreglu Zarins líta út eins og brandara. Bæði nasistar og kommúnistar voru öfl sem nutu mikillar velvildar og mjög margir bundu miklar vonir við ÁÐUR en þeir komust til valda. Þá kemur að síðasta atriðinu sem þessir þrír alræðishyggjusöfnuðir eiga sameiginlegt:

7) Snúast upp í algera andhverfu sína þegar þeir komast til valda. Kommúnistar, sem þóttust berjast fyrir réttindum verkalýðs, byggðu upp mesta kúgunarkerfi verkafólks sem mannkynssagan kann að segja frá á síðari öldum. Tugir milljóna létu lífið í Sovétríkjunum í nauðungarvinnu, svo dæmi sé tekið. Nasistar, sem boðuðu endurreisn og virðingarstöðu þýskrar þjóðar komu því til leiðar á fáum árum að landið var í rústum og algerri niðurlægingu - og meðal síðustu stjórnarathafna Hitlers var að formæla þýsku þjóðinni og fyrirskipa eyðileggingu alls sem hún gæti haft sem viðurværi.


 Berlín - niðurlæging þúsund ára ríkisins alger

Gulag - nauðungarvinnubúðir í sæluríki verkalýðs

Vissulega er ekki hægt að segja það sama um femínista - enn. Femínistar hafa hvergi komist til fullra valda á neinum stað. Ég spái því hins vegar að ef það gerist einhverntímann þá munum við verða vitni að mestu kvennakúgun sem dæmi eru um í okkar heimshluta á síðari tímum. Merki þess eru reyndar þegar sýnileg - hverjir eru það sem eru að skipa konum fyrir og ávíta og atyrða konur fyrir að hegða sér ekki rétt? Jú, það eru fyrst og fremst femínistar sem það stunda. Meira um það síðar.

Að lokum:

Fylgismenn alræðishyggjusöfnuðar skiptast jafnan í tvo hópa, en þar er þó ekki um að ræða skarpa skiptingu, heldur er grátt svæði þar sem margir geta verið með sinn hvorn fótinn í hvoru. Ég kalla þessa hópa valdahóp (frekar en valdaklíku) og nytsama sakleysingja. Í valdahópnum eru einstaklingar sem gera sér grein fyrir því að aðalmarkmið söfnuðarins er að ná völdum og drottna yfir fólki. Það þýðir þó ekki að þessir sömu einstaklingar trúi ekki á málstaðinn. Flestir þeirra gera það væntanlega. "Nytsamir sakleysingjar" er frasi sem er kominn frá KGB á sínum tíma, yfir það fólk sem KGB hafði á sínum snærum um allan heim innan vinstrisinnaðra stjórnmálaflokka, afvopnunarhreyfinga osfrv. Þetta fólk skildi ekki að það var strengjabrúður og var að vinna að markmiðum kommúnistaflokks Sovétríkjanna, en ekki þeim göfugu marmkiðum sem það taldi sig vera að vinna að. Þeir sem fylla þennan flokk eru sem sé einstaklingar sem trúa á málstaðinn og halda að hann sé upphaf og endir þess sem hreyfingin/söfnuðurinn stendur fyrir, en átta sig ekki á því að valdahópurinn er fyrst og fremst að sækjast eftir völdum í sínar hendur. Þetta gildir líka um femínista.

Látum þetta duga í bili. Mörg atriði hér að ofan ætla ég að taka betur fyrir síðar.

Femma Hrúts