Thursday, March 15, 2012

Femínistar og sæluríkið

Samantekt

Femínistar boða sæluríki, eins og aðrir alræðishyggjusöfnuðir. Það fer ekki hátt í áróðrinum, vegna þess að fólk nú á dögum er lítt ginnkeypt fyrir slíku. Það heyrist þó, helst í einkasamtölum en þó líka hrekkur það út úr femínistum í opinberri umræðu. Það eru helst nytsömu sakleysingjarnir sem missa slíkt út úr sér, vegna þess að þeir bera ekki skynbragð á að sumt sem femínistar ræða í sínum hópi er til innanhússneyslu og er ekki ætlað til að koma fyrir sjónir almennings - nytsömu sakleysingjarnir lifa jú í þeirri trú að það sem femínisminn býður upp á sé allt saman heiðarlegt og uppi á borðinu, og að það sem þeir heyra í samtölum við femínista úr valdahópnum sé alveg óhætt að endurtaka svo aðrir heyri.

Sæluríki femínismans 

- virðist vera til í fleiri en einni útgáfu - ég hef heyrt femínista tala um að sæluríki muni rísa þegar konur ráða öllu í heiminum - eða einhverjum hluta hans. Hugmyndin er að eiginleikar konunnar, sem eru betri og jákvæðari en eiginleikar karlsins, muni valda því að styrjaldir, hungur, óréttlæti og þess háttar verði úr sögunni. Hversu mótaðar og viðurkenndar slíkar hugmyndir eru meðal femínista skal ósagt látið, en þær eru til. Þær hjóma býsna hjákátlega þegar valdakonur sögunnar eru rifjaðar upp - Elísabet I af Englandi, Katrín II af Rússlandi, Indira Gandhi, Golda Meir, Margaret Thatcher..... þetta voru konur sem hikuðu ekki við að heyja styrjaldir, brenna fólk á báli, halda uppi gríðarlegu misréttissamfélagi, smíða kjarnorkusprengjur osfrv. Ég eyði ekki fleiri orðum að þessari hugmynd, það þarf annað hvort mikla fáfræði eða barnaskap til að taka hana alvarlega.
Hin útgáfan af sæluríki femínismans, og sú sem stendur styrkari fótum í hugmyndafræði femínismans er nokkurn veginn eins og nú verður lýst. Ég hef ekki enn helgað femínískri hugmyndafræði heila grein, en það mun gerast svo hafið biðlund. Í millitíðinni verð ég að vísa stuttlega í nokkra hornsteina feminískrar hugmyndafræði.

Hugmyndin um félagsmótun er gífurlega mikilvæg innan femínískrar hugmyndafræði. Það hljómar hvorki mikið né merkilegt, en það sem femínistar halda fram er alger félagsmótun - sem sé að einstaklingurinn fæðist algerlega ómótaður og mótist 100% af umhverfinu, þ.e. því sem hann upplifir á lífsleiðinni. Engir meðfæddir eiginleikar eru viðurkenndir.


Þessi hugmynd hefur verulega vankanta, sem lýst verður síðar. Í millitíðinni skal ítrekað að þessu kenning er gríðarlega mikilvæg fyrir femínismann. Á grundvelli hennar halda femínistar því fram að öll neikvæð hegðun, ekki síst karlmanna, orsakist af því sem viðkomandi einstaklingar hafa upplifað á lífsleiðinni. Sjálf krafa femínista til valda og áhrifa byggist á þessu, því loforðið um sæluríki femínismans er rökstutt þannig:

Þegar femínistar hafa náð völdum mun verða komið í veg fyrir að óæskileg "skilaboð" (sem femínistum er tíðrætt um) séu send út í gegnum fjölmiðla, auglýsingar, kvikmyndir, bókmenntir osfrv. Þá mun neikvæð hegðun eins og ofbeldi og ruddaskapur fyrr eða síðar hætta, vegna þess að félagsmótun sem leiðir til slíkrar hegðunar verður ekki lengur til staðar. Með því að eingöngu "rétt" mótaðir einstaklingar vaxa úr grasi við hina nýju skipan mála hverfur líka löngun allra til að senda út óæskileg skilaboð - samfélagslegur vandi verður úr sögunni í eitt skipti fyrir öll - sæluríki hefur verið komið á þar sem ofbeldi, virðingarleysi fyrir konum og annað slíkt heyrir sögunni til.


Hvernig skyldi þessu verða hrint í framkvæmd? Femínistar segja fátt um það, enda myndi það virðast hjákátlegt í eyrum flestra. Stundum er samt hægt að öðlast innsýn í fyrirætlanir femínista gegnum það sem nytsömu sakleysingjarnir missa út úr sér. Eitt dæmi, gulls ígildi er eftirfarandi.

Magnús Sveinn Helgason skrifaði grein á smuguna þann 16. desember 2011

http://smugan.is/2011/12/andfeminismi-nihilismi-og-frjalshyggja/

þar sem eftirfarandi línur koma fyrir:

"Fyrir femínistum er rót ójafnréttis, kvennakúgunar og annarrar kúgunar á undirokuðum hópum sú að ójafnréttið er byggt inn í samfélagið: Það gegnsýri menninguna alla og samfélagið allt. Konur séu fórnarlömb kerfisbundinnar mismununar, mismununar sem er samfélagsleg. Til að ráðast gegn óréttlætinu þurfi því að ráðast í róttækar breytingar á samfélagsgerðinni allri – breytingar sem krefjist samfélagslegrar samstöðu og þess að sameiginlegum tækjum samfélagsins og stofnunum sé beitt."


Það er nefnilega það. Þarna er að finna örlitla innsýn í það sem femínistar ætlast fyrir komist þeir til valda í samfélaginu, og það er ekki erfitt að fylla í eyðurnar með dálítilli rökfærslu. Femínistar telja að samfélagið sé svo skakkt að því er varðar mismunun gegn konum að ekki séu önnur ráð til en að framkvæma gagngerar breytingar á samfélagsgerðinni allri. Hvað skyldi nú felast í því? Skyldi það ganga þegjandi og hljóðalaust fyrir sig? Það fyrsta sem þarf að átta sig á, þegar á að "ráðast í róttækar breytingar á samfélagsgerðinni allri" er að þeir sem eru í valda-, áhrifa- og eignastöðum í samfélaginu munu beita öllum sínum mætti og úrræðum (sem eru mörg og mikil) til að berjast gegn slíkum breytingum. Það segir sig sjálft, því enginn samþykkir að vera sviptur slíkri aðstöðu. Því yrði nauðsynlegt að fjarlægja slíka aðila úr valda- og eignastöðum sínum. Er hægt að gera slíkt með lýðræðislegum og friðsamlegum hætti? Svarið er einfalt: Nei, það er ekki hægt. Stjórnarskráin kemur í veg fyrir eignaupptöku og að dómurum sé vikið úr sætum sínum. 

Leið femínista að sæluríkinu

Lýðræðisfyrirkomulagið tryggir að almúginn getur skipt út valdhöfum með reglubundnum hætti, og engin ríkisstjórn getur reynst sigursæl í kosningabaráttu ef hún á að baki kjörtímabil þar sem hún hefur staðið fyrir aðför að öllum helstu valda- og eignablokkum samfélagsins, vegna þess að þær sömu blokkir munu kosta öllu til að ófrægja viðkomandi ríkisstjórn og styrkja mótframbjóðendur hennar. Það sem femínistar ætlast fyrir er því algerlega óhugsandi við þá stjórnskipun sem við höfum á Íslandi. Eina leiðin til að ná markmiði femínista um "róttækar breytingar á samfélagsgerðinni allri" er því að fara nákvæmlega sömu leið að því markmiði og aðrir alræðishyggjusöfnuðir hafa gert í gegnum tíðina. Ef slíkt yrði að veruleika á Íslandi, þ.e. að ríkisstjórn femínista hyggðist ráðast í slíkt verkefni þá yrði það vart framkvæmt öðruvísi en að stofna nýja deild lögreglunnar þar sem engöngu harðir femínistar störfuðu. Síðan væru handteknir allir þeir sem hafa sýnt sig að vera andstæðingar femínista í ræðu og riti, og eftir hendinni þeir sem reyndust vera andfemínistar jafnóðum og það kæmi upp úr dúrnum. Síðan væri ráðist í að handtaka lykileinstaklinga í valda- og eignakerfi samfélagsins, og öðrum ógnað þar til þeir annaðhvort samþykktu að fela femínistum umsjá fyrirtækja sinna og stofnana, eða fylgdu hinum í fangelsi. Dómarastéttin yrði áreitt og meðlimum hennar ógnað, þeir dómarar sem reyndust femínistum óþægur ljár í þúfu yrðu líklega afgreiddir þannig að upplognar sakir væru bornar á þá með miklum áróðri þar til þeir neyddust til að segja af sér. Það sem ég hef hér lýst er langsótt, ég veit það fullvel, en þetta er engu að síður vægasta leið sem til er að hinu yfirlýsta markmiði femínista um "róttækar breytingar á samfélagsgerðinni allri". Nærtækasta hliðstæðan, amk í tíma, er líklega hinar róttæku breytingar á samfélagsgerð Zimbabwe sem Robert Mugabe réðst í á fyrsta áratug þessarar aldar. Helstu aðferðir voru þær að senda aðgerðasinna inn á fyrirtæki og bú hvítra manna með ofbeldi og skemmdarverkum, og að ofsækja dómarastétt landsins með svipuðum hætti og ég lýsti hér að ofan.


Þegar Magnús talar um "breytingar sem krefjist samfélagslegrar samstöðu og þess að sameiginlegum tækjum samfélagsins og stofnunum sé beitt." er hann einmitt að tala undir rós um það sem ég er búin að lýsa. Skyldi Magnús skynja sín eigin orð þannig? Áreiðanlega ekki, enda tel ég að Magnús sé nytsamur sakleysingi sem er aðeins að endurtaka það sem hann hefur heyrt hjá femínistum í valdahópnum án þess að átta sig á því hvað hangir á spýtunni.


Femínistar forðast það að tala um hvernig markmiðum þeirra verði náð með praktískumm hætti. Ástæðan er auðskilin - slík verknaðarlýsing yrði annað hvort augljóslega óraunhæf, eða þá að hún yrði svipuð þeirri sem ég útlistaði hér fyrir ofan, og afhjúpaði þannig femínistahreyfinguna fyrir það sem hún er - alræðishyggjusöfnuður sem er sama um allt nema völd.

Góðar stundir

Femma Hrúts

Sunday, March 4, 2012

Femínistar og valdefling konunnar

Eða - þú þorir ekki, getur ekki neitt, og veist ekki hvað þú vilt.

Femínistar reka megnan áróður fyrir því sjónarmiði að gífurleg kvennakúgun eigi sér stað í samfélagi okkar. Það er raunar furðuleg afstaða þegar kalt mat er lagt á stöðu kvenna á Íslandi í dag, og stöðu kvenna á öðrum tímum og stöðum í heiminum, það ku jú best í heimi að vera kona á Íslandi:


Það er hins vegar ekki umfjöllunarefni þessa pistils.

Samantekt

Femínistar hvetja ekki konur til að reyna að bæta stöðu sína af eigin rammleik, þvert á móti bregðast femínistar illa við þegar tilburðir í að bæta stöðu kvenna koma fram sem ekki eru á forsendum femínista. Ástæðan er að femínistar sækjast fyrst og fremst eftir völdum, og ef staða kvenna batnar minnka möguleikar femínista á að komast til pólitískra valda. Nútíma femínismi er orðinn andhverfa rauðsokkuhreyfingarinnar.

Hér verður tekið fyrir hvernig femínistar hvetja konur til að bæta stöðu sína hver og ein gagnvart því ofríki sem þeim er talin trú um þær séu beittar. Besta leiðin til að hjálpa einhverjum er jú að benda viðkomandi á hvernig hann/hún getur hjálpað sjálfum/sjálfri sér. Fljótt kemur á daginn að femínistar gera það alls ekki, og bregðast reyndar við á mjög neikvæðan hátt þegar tilraun til að leiðrétta misréttið kemur fram sem er ekki á forsendum femínista. Það kynni að koma einhverjum á óvart, en er fullkomlega skiljanlegt út frá þeirri forsendu að fyrir femínistum vakir alls ekki að bæta stöðu kvenna.

Best er að taka fyrir það áhersluatriði sem femínistar halda einna mest á lofti: hinn "óútskýrða launamun" kynjanna. Hugmyndin er sú, að meðaltalstekjur kynjanna séu mismiklar, og að þegar búið er að leiðrétta fyrir ýmsum þáttum sem skýra þennan mun, þ.e. orsakast ekki af misrétti, þá sé enn eftir einhver munur sem ekki tekst að skýra með málefnalegum rökum. Svo það komi skýrt fram, þá dreg ég alls ekki í efa að svo sé.

Tökum það sem gefið - konur fá að meðaltali lægri laun en karlmenn fyrir sömu störf. Þá er ein spurning sem skýtur strax upp kollinum - hvað gerir sá/sú sem telur sig fá of lág laun? Svarið er jafn augljóst og spurningin: fer á fund yfirmanns og biður um launahækkun. Femínistar vilja bæta þetta misrétti að eigin sögn, svo það er augljóst hver boðskapur þeirra til kvenna á vinnumarkaði er: "Farið að hitta yfirmanninn ykkar og farið fram á launahækkun!" Ekki satt?


Nei - ósatt. Femínistar hafa ALDREI hvatt konur til slíks - ég segi það með fyrirvara því maður ætti aldrei að segja aldrei - en ég hef amk aldrei heyrt af slíku. (Ef einhver þekkir dæmi slíks, endilega bendið mér á!) Sú staðreynd, (ef rétt reynist) er óskiljanleg ef gengið er út frá því að femínistar vilji raunverulega valdefla konur og útrýma kynbundnum launamun, en fullkomlega skiljanlegt ef gengið er út frá því að femínistar hafi engan áhuga á því sama. Eins og aðrir alræðishyggjusöfnuðir nærist femínismahreyfingin á hinu meinta óréttlæti sem hann gefur sig út fyrir að berjast gegn. Ef óréttlætinu væri útrýmt einn góðan veðurdag þá hverfur grundvöllurinn fyrir söfnuðinum og valdadraumar hans gufa upp. Nákvæmlega það gerðist í V-Evrópu á fyrri hluta 20. aldar og fram undir 1970 að því er varðar Marxismann. Verkalýðsfélög náðu að leiðrétta það óréttlæti, sem var vissulega hróplegt, sem fólst í lágum launum og slæmum aðbúnaði verkafólks og Marxistar úthrópuðu. Með því að vandamálið hvarf missti allt fólk með réttu ráði áhugann á því að gera blóðuga byltingu og lyfta Marxistum til alvalda. Femínistahreyfingin er hugmyndafræðilegur arftaki Marxismans, (meira um það síðar) og femínistar vilja fyrir alla muni forðast að einhver sagi greinina undan þeim með því að leysa vandamálið. Hvað gerist þá þegar einhver hefur uppi tilburði í þá veru? Það er mjög athyglisvert.

Í september 2011 kom Verslunarmannafélag Reykjavíkur með útspil í þessu máli:


"Hefur VR ákveðið að skera upp herör gegn kynbundnum launamun og skorar á atvinnurekendur að leiðrétta það misrétti sem felst í að greiða konum að jafnaði 10% lægri laun en körlum fyrir sömu vinnu.

Fyrirtæki eru hvött til að lýsa stuðningi við átakið og að veita konum sérstakan 10% afslátt af vöru og þjónustu á tímabilinu 20.-26. september. Með því að bæta konum á þennan táknræna hátt 10% launamuninn leggja fyrirtækin sitt lóð á vogarskálarnar í þeirri vitundarvakningu sem nauðsynleg er til að útrýma launamisréttinu."

Athygli vekur að þarna var ekki verið að stinga upp á varanlegu fyrirkomulagi heldur tímabundinni uppákomu sem var ætluð til vitundarvakningar, nákvæmlega það sem femínistar hvetja til í sífellu - vitundarvakningar. Viðbrögð femínista urðu þess vegna afar jákvæð gagnvart þessu framtaki, eins og forkólfar VR höfðu vænst - ekki satt?

Nei - ósatt. Viðbrögð femínista voru þvert á móti neikvæð. Hrafnhildur Snæfríðar og Gunnarsdóttir, talskona Femínistafélagsins hafði þetta að segja um frumkvæði VR:


"Þarna gefst fyrirtækjum sem mismuna starfsfólki sínu á grundvelli kyns tækifæri til að fá á sig einhvers konar jafnréttisstimpil og fá auglýsingu út á að vera á móti kynbundnum launamun. Þótt enginn sé hlynntur kynbundnum launamun, en samt veigri fyrirtæki sér við að leiðrétta hann."


Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að ég tel ekki að þetta sé góð hugmynd hjá VR, vegna þess að eitt óréttlæti á ekki að leiðrétta með öðru. Hins vegar er það röksemdafærsla femínista í málinu sem skiptir máli. Það er femínistafélaginu þyrnir í augum að fyrirtæki geti hugsanlega haft jákvæða umfjöllun upp úr krafsinu með því að leggja lóð sitt á vogarskálarnar að því að útrýma kynbundnum launamun. Það er AÐALATRIÐIÐ í þeirra augum og mikilvægara en hin eiginlega barátta gegn kynbundnum launamun - aðrir en femínistar mega ekki sjást gera eitthvað sem miðar að því að leysa vandamálið. Svart skal vera svart og hvítt skal vera hvítt - femínistar eru hið frelsandi afl og fyrirtækin eru óvinurinn.

Áróður femínista hamrar í sífellu á því að þjóðfélagið sé gegnsýrt óréttlæti gagnvart konum, svo rótgrónu misrétti að konur hafi enga möguleika á því að bæta stöðu sína af eigin rammleik. Þetta kalla ég fórnarlambsvæðingu, og er sami undirróður og nasistar og Marxistar höfðu uppi á sínum tíma, aðeins með annan markhóp. Eins og ég hef nefnt, vekur það athygli að femínistar virðast aldrei hvetja konur til að taka af skarið, hver og ein fyrir sig, til að bæta stöðu sína eftir því sem unnt er. Þarna er á ferðinni hróplegt ósamræmi við það sem rauðsokkurnar boðuðu hér á landi á árum áður. Það voru konur sem virkilega börðust fyrir kvenréttindum. Man einhver slagorð þeirra? Jú það var svona:

"Ég þori, get og vil."


Rauðsokkurnar voru óþreytandi við að minna konur á að rísa upp og taka þann rétt sem þeim var annars neitað um. Þeim tókst líka ætlunarverk sitt. Lög og reglur sem hömluðu framgangi konunnar á hvaðeina vettvangi samfélagsins heyra nú sögunni til. Málflutningur femínista nú er með ólíkindum hvað þetta varðar. Femínistar tala sífellt um skilaboð samfélagsins til kvenna, sem láta þær gera hluti sem þær kæra sig ekki um, eða að þær geri sér ekki grein fyrir því að verið sé að stjórna þeim - eins og konur séu viljalaus og heilalaus fyrirbæri. Í þessu felst ekki minni kvenfyrirlitning, og það af hálfu þeirra sem þykjast berjast fyrir hagsmunum kvenna, en úr munni þeirra einstaklinga sem mest velta sér upp úr kvenfyrirlitningu sinni. Hver eru skilaboðin þá? Þau eru að konur séu fórnarlömb, ósjálfbjarga leiksoppar aðstæðna sem þær hafa ekki roð við. Það mætti orða svo:

"Þú þorir ekki, þú getur ekki neitt, og þú veist ekki hvað þú vilt. Þess vegna þarftu okkur femínistana til að passa upp á þig."

Góðar stundir.

Femma Hrúts

Saturday, March 3, 2012

Femínistar og karlhatur

Femínistar eru oft sakaðir um karlhatur, en bera það jafnharðan af sér. Hver skyldi sannleikurinn vera? Við skulum skoða málið!

Samantekt

Davíð Þór Jónsson hefur orðið fyrir óvægnum árásum femínista fyrir það að hafa skoðanir sem ekki eru femínistum þóknanlegar. Femínistar gera ekki greinarmun á málefnalegri og rökstuddri gagnrýni annars vegar, og skítkasti og kvenfyrirlitningu hins vegar. Ég skoða nokkur dæmi um þetta. Að lokum sjáum við nokkur dæmi um tært karlhatur sem femínistar breiða út.


Davíð Þór Jónsson er yfirlýstur femínisti. Hlutskipti nytsama sakleysingjans innan femínismans kristallast líklega hvergi betur en í persónu og hlutskipti Davíðs. Það sem yfir þann vesalings mann gekk á undanliðnu ári (sem hann getur kannski að einhverju leyti sjálfum sér um kennt) leiðir berlega í ljós það fals sem femínistar bera fram þegar þeir tala um það hvað það er að vera femínisti og að hverju og hverjum femínistar beina spjótum sínum.


Rifjum fyrst upp hvað það er að vera femínisti að dómi femínista sjálfra:

„Femínisti er karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því.“

Allt bendir til þess að Davíð Þór Jónsson falli undir þessa skilgreiningu. Það reynist hins vegar ekki vera nóg þegar á hólminn er komið, meira um það síðar. Um það að hverjum femínistar segjast beina spjótum sínum í baráttu sinni, þá hefur það oft komið fram að femínistar segjast ekkert hafa við karlmenn almennt að sakast og að femínistar fagni því sem karlmenn hafa fram að færa í umræðuna, en að femínistar ráðist gegn einstaklingum eins og Gillzenegger sem kvenfyrirlitningin lekur af. Annað kemur þó á daginn.

Davíð Þór Jónsson skrifaði blaðagrein haustið 2011 þar sem hann gagnrýndi aðferðir samtaka sem kalla sig "Stóru systur".


Viðbrögðin létu ekki á sér standa. María Lilja Þrastardóttir, femínisti, skrifaði grein á vefritið Innihald.is og réðst að persónu Davíðs á hinn rætnasta hátt ásamt margföldum útúrsnúningi á orðum Davíðs. Þá grein er ekki lengur hægt að lesa þar eð hýsillinn ályktaði að María hefði margbrotið reglur þess miðils og fjarlægði greinina. Í grein sinni hafði Davíð ekki gert annað en að setja fram málefnalega gagnrýni á Stóru systur, en slíkt er ekki ær og kýr femínista - nema þá nytsömu sakleysingjanna. Davíð hótaði Maríu málsókn, og María svaraði með duldum hótunum þar sem hún gaf í skyn að Davíð yrði spyrtur saman við einstaklinga eins og Geira Goldfinger og Ólaf Skúlason ef hann léti verða af hótun sinni. Davíð skildi hvað klukkan sló og guggnaði. Hann endaði á að biðja Maríu afsökunar, og það gerði einnig miðillinn Innihald.is. María bað aldrei neinn afsökunar vegna þessa máls svo ég viti.

Nú hefur Davíð kannski haldið að honum hafi tekist að kaupa sér frið - en friðkaupastefna gagnvart alræðishyggjusöfnuðum hefur aldrei verið góður bissniss eins og Neville Chamberlain komst að raun um. Það leið ekki á löngu þar til næsta gusa gekk yfir Davíð, í þetta skipti frá femínistanum Sóleyju Tómasdóttur í pistli á Smugan.is:


Þarna vitnar Sóley í grein eftir Davíð Þór Jónsson:

"Femínismi, sem setur konur í þá stöðu að þurfa að afsaka og réttlæta klæðaburð sinn, notkun á snyrtivörum, verkaskiptinguna inni á heimilinu eða jafnvel langanir í kynlífi, er á villigötum. Þegar hugmyndafræði, sama hvaða nafni hún nefnist, fer að fela í sér ritskoðun, tískulögreglu og persónunjósnir er hún löngu hætt að snúast um hugsjónir. Þá hefur vænisýkin tekið völdin, eins og svo sorglega mörg dæmi sanna."
Þarna hefur Davíð sett fram gagnrýni á femínismann sem er vissulega hörð, en engu að síður málefnaleg og vel innan þeirra marka sem almenn smekkvísi myndi setja, og er ekki beint að neinum nafngreindum einstaklingi. En sem fyrr segir, slíkt höfðar ekki til femínista, nema þá nytsömu sakleysingjanna. Sóley líkir þessum málflutningi við strák sem kallaði hana "kuntu" - hana persónulega. Ekki aðeins það, heldur setur hún ummæli Davíðs í skýrt samhengi við Gillzenegger og hans lífssýn. M.ö.o., eins staðfastur og áberandi femínisti eins og Sóley Tómasdóttir er, gerir engan greinarmun á því að kalla konu "kuntu" eða lifa lífi stækrar kvenfyrirlitningar annars vegar, og málefnalegri gagnrýni á hugmyndafræði og aðferðum hins vegar. Fleira bitastætt er að finna í grein Sóleyjar. Davíð hafði kallað sig femínista í grein sinni og samkvæmt skilgreiningu femínista sjálfra getur hann mæta vel fallið í þann hóp. Sóley er þó ekki á þeim buxunum að samþykkja það. Um þetta segir Sóley:

"sniðugt strákar, prófið þetta næst, þið getið gagnrýnt harðar ef þið þykist vera innanbúðarmenn"

Davíð er sem sagt ekki femínisti eftir allt saman. Kannski hann hafi gleymt að lesa smáa letrið - eða skyldi hafa bæst eitthvað við skilgreininguna í skjóli nætur? Þetta minnir á boðorð Dýrabæjar í skáldsögu George Orwells, en það er einmitt sá höfundur, ef ekki sá maður, sem hefur lagt mest af mörkum til að vara við alræðishyggju. "Ekkert dýr má sofa í rúmi" breyttist skyndilega í "Ekkert dýr má sofa í rúmi með ábreiðu". Kannski hin raunverulega skilgreining á femínistanum hljóði svona:

„Femínisti er karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því án þess að gagnrýna söfnuðinn"

Hér hefur femínistinn fellt grímuna algerlega, um þau atriði sem ég hóf þennan pistil á. Á tyllidögum þykjast femínistar eingöngu ráðast gegn öfgafullum dæmum kvenfyrirlitningar, en reynslan sýnir að þeir ráðast jafnt gegn þeim sem gagnrýna femínismann með málefnalegum hætti. Þeir sem telja sig til femínista þurfa ekki að uppfylla annað en að berjast fyrir jafnrétti kynjanna, segja femínistar, en þeir sem gagnrýna aðferðirnar eru settir út af sakramentinu, og rúmlega það. Að síðustu staldra ég við eftirfarandi málsgrein:

"Mér er skapi næst að líta á kynslóðina sem fórnarlömb. Fórnarlömb öfgafullra staðalmynda sem hafa verið mærðar og dáðar af fyrirtækjum og fjölmiðlum og haft stórkostleg áhrif á sjálfsmynd, sjálfstraust og hegðan fólksins sem er að vaxa úr grasi."


Þetta er mjög merkileg setning, vegna þess að alræðishyggjusöfnuðir reyna ætíð að sannfæra fólk um að það sé fórnarlömb afla eða aðstæðna sem það stendur varnarlaust gagnvart. Ég kalla þetta fórnarlambsvæðingu. Málið er nefnilega að ef þér tekst að sannfæra manneskju um að hún sé fórnarlamb, þá nærðu valdi yfir henni. Meira um það síðar.

"Myndaalbúmið" og karlhatrið

Hildur Lilliendahl Viggósdóttir, er yfirlýstur femínisti. Hún hefur safnað saman ummælum nafngreindra einstaklinga, allt karlmanna, á facebook síðu sinni undir yfirskriftinni "Karlar sem hata konur". Vissulega er þar að finna ummæli sem bera mælandanum ekki fagurt vitni, en líka er þar að finna allnokkrar sem er erfitt að sættast á að verðskuldi að mælandinn sé ataður auri og sakaður um að hata konur. Ég ætla að sýna nokkur dæmi.


"ekkert má orðið.. blátt M&M gefur krabbamein ef þú borðar baðkar á dag í 10 ár.. hitt og þetta.. blablabla það er flókið að fæðast í dag.. spurning að e-h fari að hanna leiðbeiningar fyrir lífið sem krakkar fá? það ætti að vera gróða vænt.. þetta er löngu farið út fyrir öll velsæmismörk.. þá er ég að tala um að feministar segja fólki hvernig það á að lifa og svo stórasystir... ogsvfr..."

Það var nú aldeilis! Sá sem þetta sagði "hatar konur", að mati Hildar. Ætli það sé vegna frasa í síðustu setningunni, "að feministar segja fólki hvernig það á að lifa og svo stórasystir..."? Höldum áfram.

"Já, það er oft ekkert grín að vera þekktur, en mér finnst það umhugsunarefni hve auðvelt það er orðið að ryðja karlmönnum úr vegi.  Það nægir að benda á þá og ásaka um nauðgun og þar með er málið í rauninni afgreitt.  Þó að viðkomandi verði ekki dæmdur sekur, er samt búið að rústa lífi hans.  Nú skilst mér t.d. að búið sé að fleygja Gilzneggernum úr starfi og hvernig sem þetta fer, verður þetta búið að valda honum gífurlegu tjóni.  Ofan á þetta vilja hörðustu feministarnir svo snúa sönnunarbirðinni við, þannig að ef maður sé kærður fyrir nauðgun, þá verði hann að sanna að hann sé saklaus ef hann á geta um frjálst höfuð strokið.

Svo getur auðvitað vel verið að maðurinn sé sekur, en það hefur ekki verið úr því skorið enn. "

Það er nefnilega það. Þessi hatar líka konur að mati femínistans Hildar. Þarna er reyndar að finna harða gagnrýni á femínista, en samt er þarna ekki að finna neitt nema málefnalega umfjöllun um atburði líðandi stundar. Fleira:

"Er greyið að fatta að jafnrétti er ekki það sem femínasistar og sendisveinar þeirra vilja, heldur misrétti í garð karla.
Fagna því að svona vitleysa sé kærð, enda væri gaman að sjá hvað femínasistar mundu segja ef þetta væri öfugt."

Aftur hörð gagnrýni á femínista, og kannski ósmekkleg, en að sá sem skrifar þetta hati konur? Hvernig skyldi það vera fengið út? Allavega, á þessum stað er að finna margt fleira af sama meiði - ummæli sem er óskiljanlegt að tengd séu við kvenhatur en eru fjandsamleg í garð femínista en ég tími ekki plássinu undir það allt.
Svona málflutningur, eða ofsóknir, er nokkuð dæmigerður fyrir femínista og aðra alræðishyggjusöfnuði ef út í það er farið. Markmið málflutnings/áróðurs alræðishyggjusafnaða er að ráðast að persónu andstæðingsins og hafa af honum æruna ef hægt er. Það þjónar tvennum tilgangi ef vel tekst til: sá sem atlagan beinist að verður ómarktækur í umræðunni, og aðrir hugsa sig tvisvar um áður en þeir voga sér að andmæla söfnuðinum. Hér sannast líka enn og aftur blekking sem femínistar hafa oft uppi, að barátta femínista beinist eingöngu gegn einstaklingum og hópum sem sýna af sér brjálæðislega fyrirlitningu á konum, og stuðla þannig að alls kyns óæskilegri hegðun, en ekki hinum breiða meirihluta karlmanna sem megi alveg hafa skoðanir sínar í friði. Annað kemur í ljós þegar á reynir. Ófrægingarherferð femínista beinist í ríkum mæli að þeim sem hafa það eitt til saka unnið að láta í ljósi málefnalegar skoðanir á ákveðnum málefnum sem femínistar samþykkja ekki. Í stuttu máli:

Gagnrýni á femínista = kvenhatur

Þetta er afar gagnleg formúla fyrir femínista. Það má hugsa sem flæðirit:

Öfgafullur málflutningur femínista -> aukin gagnrýni á femínista -> aukið "kvenhatur" -> enn öfgafyllri málflutningur femínista

Sannkölluð vinningsformúla!

Nefna má að Facebook hefur ítrekað lokað á aðgang Hildar vegna myndaalbúmsins svokallaða.

"Alvöru" karlhatur?

Nú spyr kannski einhver: en hvað með "alvöru" karlhatur? Alhæfingar um karlmenn og slíkt? Er það til? Svarið er, já svo sannarlega. Um það eru mörg dæmi. Sem dæmi má nefna áróðursherferð sem femínistar stóðu fyrir í ársbyrjun 2011 á síðum fréttablaðsins, þar sem yfirlýstir femínistar, allt karlmenn, birtu eina grein á dag yfir mánaðartímabil. Höfundarnir skrifuðu sem hópur sem kallar sig "Öðlingana"; meira lýsandi heiti væri "Nytsömu sakleysingjarnir". Við skulum skoða nokkur dæmi um það sem þar kom fram.

Gunnar Hersveinn skrifaði grein sem hann titlaði "Karlvæðing þjóðareigna":


Þar var meðal annars þetta að finna:

"Völd karla eru stofnanabundin og þeim er viðhaldið á hinum ýmsu sviðum samfélagsins. Konur eru ekki aðeins útilokaðar frá samráði í yfirráðakerfi karla heldur einnig frá þýðingarmiklum stjórnum í viðskiptalífinu og nefndum í stjórnsýslunni. Lýsandi dæmi um þetta er Framkvæmdanefnd um einkavæðingu, en þar sátu einungis sérvaldir karlmenn í þau fimmtán ár sem tilgreind eru á heimasíðu forsætisráðuneytis, árin 1992-2007."

"Einkavæðing íslenskra þjóðareigna má því með réttu kalla: einkavæðingu karla á eignum þjóðarinnar. Þetta er alvarlegt misrétti og sár móðgun gagnvart öllum sem unna jafnrétti og fyrri kynslóðum sem skópu þessar eignir. Hér var [um] skefjalausa valdkúgun að ræða."

"Einkavæðing karla merkir greinilega einhæfni og útilokun sjónarmiða og kemur í veg fyrir samráð og jöfnuð í samfélaginu. Fimmtán ára einræði örfárra karla í Framkvæmdanefnd um einkavæðingu var greinilega ekki æskilegt, heldur ávísun á mistök, yfirsjónir, þröngsýni, spillingu og hrun."

Þarna er að finna skýrar neikvæðar alhæfingar um karlmenn. Höfundur kennir karlmönnum, karlkyninu í heild, um tilteknar efnahagslegar ófarir í sögunni, og hvetur til þess að völd og áhrif karlmanna verði takmörkuð. Þetta kann að hljóma saklaust í eyrum margra, enda þykir það af einhverjum ástæðum ekki athugavert að vega að karlmönnum nú á dögum. Þetta skýrist betur ef lesandinn hugsar sér að það sem hér að ofan er sagt (eða annað í sama dúr) hefði verið sagt um konur. Þá kemur þetta aldeilis stökkvandi af blaðsíðunni sem blákalt hatur í garð eins kyns. Enn betra er kannski í þessi tilfelli að heimfæra textann upp á hatursáróður annars alræðishyggjusöfnuðar í garð annars þjóðfélagshóps, af ákveðnum ástæðum. Hér fyrir ofan vó Gunnar Hersveinn nefnilega að karlmönnum í nafni þess sem hann telur vera yfirráð og samsæri karla í atvinnulífinu. Það var nákvæmlega sú leið sem nasistar lögðu mesta áherslu á að nota til að útmála gyðinga sem kúgunarafl á 4. áratugnum. Sjáum hvernig textinn lítur þá út:

ATH: þrjú textabrot sem hér á eftir fylgja eru með breytingum mínum, Femmu Hrúts. Ekki á að líta á þau sem tilvitnun í Gunnar Hersvein!

"Völd gyðinga eru stofnanabundin og þeim er viðhaldið á hinum ýmsu sviðum samfélagsins. Þýskir (nasistar litu ekki á gyðinga sem þjóðverja) eru ekki aðeins útilokaðar frá samráði í yfirráðakerfi gyðinga heldur einnig frá þýðingarmiklum stjórnum í viðskiptalífinu og nefndum í stjórnsýslunni. Lýsandi dæmi um þetta er Framkvæmdanefnd um einkavæðingu, en þar sátu einungis sérvaldir gyðingar í þau fimmtán ár sem tilgreind eru á heimasíðu forsætisráðuneytis, árin 1992-2007."

"Einkavæðing íslenskra þjóðareigna má því með réttu kalla: einkavæðingu gyðinga á eignum [þýsku] þjóðarinnar. Þetta er alvarlegt misrétti og sár móðgun gagnvart öllum sem unna jafnrétti og fyrri kynslóðum sem skópu þessar eignir. Hér var [um] skefjalausa valdkúgun að ræða."

"Einkavæðing gyðinga merkir greinilega einhæfni og útilokun sjónarmiða og kemur í veg fyrir samráð og jöfnuð í samfélaginu. Fimmtán ára einræði örfárra gyðinga í Framkvæmdanefnd um einkavæðingu var greinilega ekki æskilegt, heldur ávísun á mistök, yfirsjónir, þröngsýni, spillingu og hrun."

Göbbels sjálfur hefði getað skrifað þetta. Það verður vart um villst að hér er á ferðinni stækur hatursáróður, og gæti jafnvel varðað við lög.

Annar höfundur í þessum hópi er Freyr Eyjólfsson. Hann skrifar:


"Karlmenn hafa verið ráðandi kyn í heiminum. Þeir hafa stjórnað með harðri hendi, oft með ofbeldi, eins og aðrir apafrændur sínir."

Þarna er skýr alhæfing um karlmenn sem kyn þar sem karlmönnum er kennt um harðstjórn og ofbeldi. Við skulum nú hafa það á hreinu samt að mér persónulega finnst ummæli eins og þessi tilvitnun í Frey ekki vera mjög alvarleg. Hins vegar yrði aldrei nokkurntímann samþykkt að viðlíka ummæli væri höfð uppi um konur. Ég er jafnréttissinni og því verður jafnt yfir alla að ganga.

Þriðji höfundurinn í þessum hópi er Óttar M. Norðfjörð. Hann skifar:


"Karlmenn, kannski hljómar þetta öfgafullt, en sú staðreynd að við erum karlmenn gerir okkur að sökudólgum. Hvers vegna? Því annað hvort ert þú einn þessara 16% karlmanna sem beita konur ofbeldi. Við þig vil ég einfaldlega segja: Éttu skít.

Eða þú ert einn hinna karlmannanna, og við erum sem betur fer í miklum meirihluta eða 84%. Við þig segi ég: Einhver vina þinna er að beita konuna sína ofbeldi. Þótt þú neitir að trúa því, þá sýnir tölfræðin það. Og það er í þínum verkahring að gera eitthvað í málinu. Þótt þú tilheyrir þessum 84% ertu ekki saklaus, því stundum er aðgerðarleysi líka glæpur. Að ójafnrétti og ofbeldi þrífist í samfélagi okkar er ekki bara sumum að kenna, það er öllum að kenna. Líka þér."

Leitun er að grófari og skýrari alhæfingu en er að finna hér fyrir ofan. Það er nóg að vera karlmaður til að vera sekur um ofbeldi! Líka þeir sem hafa aldrei beitt ofbeldi og aldrei orðið vitni að ofbeldi og aldrei öðlast vitneskju um ofbeldi í sínum ranni. Þeir eru samt sekir - af því að þeir eru karlmenn! Reyndar fer Óttar líka rangt með. Rannsóknin sem hann væntanlega er að vitna í segir ekkert um hlutfall þeirra karla sem beitir heimilisofbeldi, heldur um hlutfall kvenna sem eru þolendur - það er 16%. Það þýðir ekki að 16% karla fremji ofbeldið, tölfræðilega er nánast öruggt að það hlutfall er lægra:


Það ætti nú að liggja ljóst fyrir að áróður femínista samanstendur ásamt öðru af hreinræktuðu karlhatri. Ennfremur að skilgreining femínista á það hver er femínisti gildir ekki þegar á reynir, og að femínistar beina atlögum sínum jafnt að einstaklingum sem sýna af sér stæka kvenfyrirlitningu og þeim sem dirfast að gagnrýna femínista á málefnalegum nótum.

Góðar stundir!

Femma Hrúts