Thursday, March 15, 2012

Femínistar og sæluríkið

Samantekt

Femínistar boða sæluríki, eins og aðrir alræðishyggjusöfnuðir. Það fer ekki hátt í áróðrinum, vegna þess að fólk nú á dögum er lítt ginnkeypt fyrir slíku. Það heyrist þó, helst í einkasamtölum en þó líka hrekkur það út úr femínistum í opinberri umræðu. Það eru helst nytsömu sakleysingjarnir sem missa slíkt út úr sér, vegna þess að þeir bera ekki skynbragð á að sumt sem femínistar ræða í sínum hópi er til innanhússneyslu og er ekki ætlað til að koma fyrir sjónir almennings - nytsömu sakleysingjarnir lifa jú í þeirri trú að það sem femínisminn býður upp á sé allt saman heiðarlegt og uppi á borðinu, og að það sem þeir heyra í samtölum við femínista úr valdahópnum sé alveg óhætt að endurtaka svo aðrir heyri.

Sæluríki femínismans 

- virðist vera til í fleiri en einni útgáfu - ég hef heyrt femínista tala um að sæluríki muni rísa þegar konur ráða öllu í heiminum - eða einhverjum hluta hans. Hugmyndin er að eiginleikar konunnar, sem eru betri og jákvæðari en eiginleikar karlsins, muni valda því að styrjaldir, hungur, óréttlæti og þess háttar verði úr sögunni. Hversu mótaðar og viðurkenndar slíkar hugmyndir eru meðal femínista skal ósagt látið, en þær eru til. Þær hjóma býsna hjákátlega þegar valdakonur sögunnar eru rifjaðar upp - Elísabet I af Englandi, Katrín II af Rússlandi, Indira Gandhi, Golda Meir, Margaret Thatcher..... þetta voru konur sem hikuðu ekki við að heyja styrjaldir, brenna fólk á báli, halda uppi gríðarlegu misréttissamfélagi, smíða kjarnorkusprengjur osfrv. Ég eyði ekki fleiri orðum að þessari hugmynd, það þarf annað hvort mikla fáfræði eða barnaskap til að taka hana alvarlega.
Hin útgáfan af sæluríki femínismans, og sú sem stendur styrkari fótum í hugmyndafræði femínismans er nokkurn veginn eins og nú verður lýst. Ég hef ekki enn helgað femínískri hugmyndafræði heila grein, en það mun gerast svo hafið biðlund. Í millitíðinni verð ég að vísa stuttlega í nokkra hornsteina feminískrar hugmyndafræði.

Hugmyndin um félagsmótun er gífurlega mikilvæg innan femínískrar hugmyndafræði. Það hljómar hvorki mikið né merkilegt, en það sem femínistar halda fram er alger félagsmótun - sem sé að einstaklingurinn fæðist algerlega ómótaður og mótist 100% af umhverfinu, þ.e. því sem hann upplifir á lífsleiðinni. Engir meðfæddir eiginleikar eru viðurkenndir.


Þessi hugmynd hefur verulega vankanta, sem lýst verður síðar. Í millitíðinni skal ítrekað að þessu kenning er gríðarlega mikilvæg fyrir femínismann. Á grundvelli hennar halda femínistar því fram að öll neikvæð hegðun, ekki síst karlmanna, orsakist af því sem viðkomandi einstaklingar hafa upplifað á lífsleiðinni. Sjálf krafa femínista til valda og áhrifa byggist á þessu, því loforðið um sæluríki femínismans er rökstutt þannig:

Þegar femínistar hafa náð völdum mun verða komið í veg fyrir að óæskileg "skilaboð" (sem femínistum er tíðrætt um) séu send út í gegnum fjölmiðla, auglýsingar, kvikmyndir, bókmenntir osfrv. Þá mun neikvæð hegðun eins og ofbeldi og ruddaskapur fyrr eða síðar hætta, vegna þess að félagsmótun sem leiðir til slíkrar hegðunar verður ekki lengur til staðar. Með því að eingöngu "rétt" mótaðir einstaklingar vaxa úr grasi við hina nýju skipan mála hverfur líka löngun allra til að senda út óæskileg skilaboð - samfélagslegur vandi verður úr sögunni í eitt skipti fyrir öll - sæluríki hefur verið komið á þar sem ofbeldi, virðingarleysi fyrir konum og annað slíkt heyrir sögunni til.


Hvernig skyldi þessu verða hrint í framkvæmd? Femínistar segja fátt um það, enda myndi það virðast hjákátlegt í eyrum flestra. Stundum er samt hægt að öðlast innsýn í fyrirætlanir femínista gegnum það sem nytsömu sakleysingjarnir missa út úr sér. Eitt dæmi, gulls ígildi er eftirfarandi.

Magnús Sveinn Helgason skrifaði grein á smuguna þann 16. desember 2011

http://smugan.is/2011/12/andfeminismi-nihilismi-og-frjalshyggja/

þar sem eftirfarandi línur koma fyrir:

"Fyrir femínistum er rót ójafnréttis, kvennakúgunar og annarrar kúgunar á undirokuðum hópum sú að ójafnréttið er byggt inn í samfélagið: Það gegnsýri menninguna alla og samfélagið allt. Konur séu fórnarlömb kerfisbundinnar mismununar, mismununar sem er samfélagsleg. Til að ráðast gegn óréttlætinu þurfi því að ráðast í róttækar breytingar á samfélagsgerðinni allri – breytingar sem krefjist samfélagslegrar samstöðu og þess að sameiginlegum tækjum samfélagsins og stofnunum sé beitt."


Það er nefnilega það. Þarna er að finna örlitla innsýn í það sem femínistar ætlast fyrir komist þeir til valda í samfélaginu, og það er ekki erfitt að fylla í eyðurnar með dálítilli rökfærslu. Femínistar telja að samfélagið sé svo skakkt að því er varðar mismunun gegn konum að ekki séu önnur ráð til en að framkvæma gagngerar breytingar á samfélagsgerðinni allri. Hvað skyldi nú felast í því? Skyldi það ganga þegjandi og hljóðalaust fyrir sig? Það fyrsta sem þarf að átta sig á, þegar á að "ráðast í róttækar breytingar á samfélagsgerðinni allri" er að þeir sem eru í valda-, áhrifa- og eignastöðum í samfélaginu munu beita öllum sínum mætti og úrræðum (sem eru mörg og mikil) til að berjast gegn slíkum breytingum. Það segir sig sjálft, því enginn samþykkir að vera sviptur slíkri aðstöðu. Því yrði nauðsynlegt að fjarlægja slíka aðila úr valda- og eignastöðum sínum. Er hægt að gera slíkt með lýðræðislegum og friðsamlegum hætti? Svarið er einfalt: Nei, það er ekki hægt. Stjórnarskráin kemur í veg fyrir eignaupptöku og að dómurum sé vikið úr sætum sínum. 

Leið femínista að sæluríkinu

Lýðræðisfyrirkomulagið tryggir að almúginn getur skipt út valdhöfum með reglubundnum hætti, og engin ríkisstjórn getur reynst sigursæl í kosningabaráttu ef hún á að baki kjörtímabil þar sem hún hefur staðið fyrir aðför að öllum helstu valda- og eignablokkum samfélagsins, vegna þess að þær sömu blokkir munu kosta öllu til að ófrægja viðkomandi ríkisstjórn og styrkja mótframbjóðendur hennar. Það sem femínistar ætlast fyrir er því algerlega óhugsandi við þá stjórnskipun sem við höfum á Íslandi. Eina leiðin til að ná markmiði femínista um "róttækar breytingar á samfélagsgerðinni allri" er því að fara nákvæmlega sömu leið að því markmiði og aðrir alræðishyggjusöfnuðir hafa gert í gegnum tíðina. Ef slíkt yrði að veruleika á Íslandi, þ.e. að ríkisstjórn femínista hyggðist ráðast í slíkt verkefni þá yrði það vart framkvæmt öðruvísi en að stofna nýja deild lögreglunnar þar sem engöngu harðir femínistar störfuðu. Síðan væru handteknir allir þeir sem hafa sýnt sig að vera andstæðingar femínista í ræðu og riti, og eftir hendinni þeir sem reyndust vera andfemínistar jafnóðum og það kæmi upp úr dúrnum. Síðan væri ráðist í að handtaka lykileinstaklinga í valda- og eignakerfi samfélagsins, og öðrum ógnað þar til þeir annaðhvort samþykktu að fela femínistum umsjá fyrirtækja sinna og stofnana, eða fylgdu hinum í fangelsi. Dómarastéttin yrði áreitt og meðlimum hennar ógnað, þeir dómarar sem reyndust femínistum óþægur ljár í þúfu yrðu líklega afgreiddir þannig að upplognar sakir væru bornar á þá með miklum áróðri þar til þeir neyddust til að segja af sér. Það sem ég hef hér lýst er langsótt, ég veit það fullvel, en þetta er engu að síður vægasta leið sem til er að hinu yfirlýsta markmiði femínista um "róttækar breytingar á samfélagsgerðinni allri". Nærtækasta hliðstæðan, amk í tíma, er líklega hinar róttæku breytingar á samfélagsgerð Zimbabwe sem Robert Mugabe réðst í á fyrsta áratug þessarar aldar. Helstu aðferðir voru þær að senda aðgerðasinna inn á fyrirtæki og bú hvítra manna með ofbeldi og skemmdarverkum, og að ofsækja dómarastétt landsins með svipuðum hætti og ég lýsti hér að ofan.


Þegar Magnús talar um "breytingar sem krefjist samfélagslegrar samstöðu og þess að sameiginlegum tækjum samfélagsins og stofnunum sé beitt." er hann einmitt að tala undir rós um það sem ég er búin að lýsa. Skyldi Magnús skynja sín eigin orð þannig? Áreiðanlega ekki, enda tel ég að Magnús sé nytsamur sakleysingi sem er aðeins að endurtaka það sem hann hefur heyrt hjá femínistum í valdahópnum án þess að átta sig á því hvað hangir á spýtunni.


Femínistar forðast það að tala um hvernig markmiðum þeirra verði náð með praktískumm hætti. Ástæðan er auðskilin - slík verknaðarlýsing yrði annað hvort augljóslega óraunhæf, eða þá að hún yrði svipuð þeirri sem ég útlistaði hér fyrir ofan, og afhjúpaði þannig femínistahreyfinguna fyrir það sem hún er - alræðishyggjusöfnuður sem er sama um allt nema völd.

Góðar stundir

Femma Hrúts

No comments:

Post a Comment